Upphafið

Ég byrjaði að lita fyrir um 12 árum síðan þegar ég var að skrifa mastersritgerðina mína. Ritgerðin fjallar um hvernig við nýttum villtan gróður í gamla daga og ég bar það saman við Noreg og Bretlandseyjar, ég vildi sjá hvort nytjarnar og þekkingin kom frá gömlu heimahögunum eða var eitthvað sem við fundum upp á nýjum stað. Það var svona sitt lítið af hverju en sumar nytjar gátum við stundað óbreyttar milli landa en aðrar þurftum við að hugsa upp á nýtt í nýjum aðstæðum. Munurinn er að á Íslandi eru mun færri tegundir en td. í Noregi eða á Bretlandseyjum. Í Noregi eru 1300 háplöntur en á Bretlandseyjum um 5000 svo þeir hafa mun meiri möguleika til nytja en við sem höfum einungis um 500. Auk þess eru tegundirnar okkar dálítið meira artískar, smávaxnari og rýrari. Einhvern veginn hafa Norðmenn alltaf betri möguleika í stöðunni td. með fífurnar. Á Íslandi höfum við tvær fífutegundir Klófífu (Eriophorum angustifolium) og Hrafnafífu (Eriophorum scheuchzeri). Í Noregi eru 8 tegundir af Eriophorum ættkvíslinni og samheiti yfir fífurnar er Myrull því margar þeirra vaxa í votlendi. Sagt var að ungar stúlkur í Noregi notuðu fræullina til að spinna ull úr og prjóna vettlinga fyrir unnustana, líklega er það þó bara þjóðtrú því ullin er bæði stutt og brothætt en nær sannleikanum væri að þær hefðu spunnið fífuna saman við sauðaull og prjónað úr henni þannig. En fífutegundirnar í Noregi eru ekki bara fleiri heldur með lengri fræull en íslensku tegundirnar.

Ritgerðin ætlaði engan enda að taka af ýmsum ástæðum. Hún var mjög illa afmörkuð og í raun var planið að skrifa um allar íslenskar tegundir frá upphafi Íslandssögunnar og bera saman við Norðurlönd, Bretlandseyjar og Evrópulönd!!!   Samhliða ritgerðarsmíðinni þá var ég líka að kenna við Landbúnaðarháskólann og um 2009 þá byrja ég að gera tilraunir með jurtalitun en ég hafði fundið heimildir um litun í ritgerðarvinnunni og það vakti áhuga hjá mér.  Eftir að ég setti í fyrsta pottinn þá var ekki aftur snúið. Jurtalitunin tók tíma frá ritgerðarsmíðinni en ritgerðin kláraðist loksins árið 2014 og fullt nafn á henni er „Hefðbundnar grasnytjar á Íslandi með samanburð við Noreg og nágrannalönd“ og á ensku „Traditional uses of native plants in Iceland in comparison to Norway and neighboring countries:an ethnobotanical study. Það var mikill lettir þegar það var frá.

Árið 2011 urðu kaflaskil í minni litunarsögu því þá fór ég á Handverkshátíðina að Hrafnagili með bandið mitt og fékk viðurkenninguna Handverksmaður ársins 2011. Það var svo óvænt að ég er eiginlega enn rasandi yfir því þegar nafnið mitt var lesið upp.  Eftir það jókst sjálfstraustið og hvatningin var mikil fram á veginn. Ég fór á fleiri Hrafnagilshátíðir og það var alltaf jafn gaman og árið 2014 fékk ég viðurkenningu fyrir fallegasta básinn en 2015 var í síðasta sinn sem ég fór á hátíðina, eftir það komst ég bara ekki frá minni eigin vinnustofu á þessum annatíma.

 

Published On: nóvember 17, 2022

Nýjustu færslurnar

Vörurnar mínar

  • 3.700 kr.

  • 3.400 kr.

  • 3.700 kr.

  • 3.700 kr.