Hespuhúsið – vinnustofan

Í upphafi var ég að lita í eldhúsinu heima hjá mér á Álfhólnum á Hvanneyri.  Til að byrja með þá ætlaði ég að prjóna úr öllu bandinu sjálf en það gerðist ekki því ég var stöðugt að búa til meiri lit og litað band. Bandhrúgan stækkaði og ég þurfti að losna við hana svo ég gæti litað meira og þá fór ég á Mýraeldahátíð en þar var markaður með handverki. Þar seldi ég svolítið af bandi og það var svo gaman. En upp frá því þá fór fólk að hringja í mig og spyrja hvort það mætti kíkja í pottana og sjá ferilinn og heyra söguna svo áður en ég vissi af þá var ég farin að taka á móti rútuförmum af gestum í eldhúsinu hjá mér og selja bandið í stofunni. Þetta gat ekki gengið til eilífðar að blanda svona saman heimili og gestagangi svo ég keypti hús fyrir utan Hvanneyri, uppi við Andakílsárvirkjun þar sem ég gat haft starfsemina í bílskúrnum en haldið heimilinu fyrir mig. Hespuhúsið opnaði ég 2012 og það fór vel um mig uppi við virkjun í mörg ár þar sem ég kenndi á veturna við Landbúnaðarháskólann og sinnti bandinu og gestagangi á sumrin, þetta var ljúft en líklega of ljúft því mér var farið að leiðast. Ég hafði ekki pláss fyrir stóra hópa, ég var ekki í alfaraleið og ég hafði ekki lager til að geyma aðrar vörur eða miklar birgðir, ég var orðin aðþrengd með hugmyndir og efni. Þá fór ég að hugsa mér til hreyfings og leitaði lengi að réttu staðsetningunni við Borgarfjarðarbrautina en ég fann ekki og að lokum endaði ég á Suðurlandinu í nágrenni við Gullna hringinn. Ég keypti lögbýlið Lindarbæ sumarið 2019 og flutti um haustið á Suðurlandið en það er ekkert grín að standa í framkvæmdum á Suðurlandinu á sama tíma og ég er með reksturinn í gangi og kennslu í Borgarfirði. Framkvæmdirnar stóðu yfir fram yfir áramót og húsnæðið var orðið vinnufært þega ég opnaði í mars um það bil þegar landið lokaði vegna Covid. Fyrstu tvo árin voru erfið en þetta síðasta ár hefur verið frábært og nú kemur í ljós hvað þetta húsnæði er frábært fyrir mína starfsemi og staðsetningin góð.

Published On: nóvember 25, 2022

Nýjustu færslurnar

Vörurnar mínar

  • 3.700 kr.

  • 6.400 kr.

  • 3.700 kr.

  • 3.700 kr.