Gleðilegt nýtt ár
Gleðilegt nýtt ár. Þá er kominn vetrartími í Hespuhúsinu. Það þýðir ekki að vinnustofan sé lögst í dvala, síður en svo, en ég held ekki úti föstum opnunartímum í bili en tek á móti gestum hvenær sem er eftir samkomulagi. Best að hringja á undan sér eða senda tölvupóst 8652910 og hespa@hespa.is. Enginn tími heilagur.. Ég er hér að vinna meira og minna og hef gaman af að fá gesti á þessum rólega tíma. Vetrarverkefnin eru aðeins öðruvísi en sumarverkefnin. Núna sit ég mikið við tölvuna við skriftir og skipulagningu. Það þarf að panta það hráefni sem þarf að kaupa erlendis frá td. indígó og möðrurót, einnig eru flestir pokarnir mínir framleiddir erlendis, hvort sem það eru taupokar eða bréfpokar. Ég er að vinna í sérstöku púsluspilaverkefni og það fylgja því miklar skriftir og stúss í kringum prentun, umbúðir, þýðingar og ljósmyndaöflun. Fuglaspil nr. 2 kemur til landsins í byrjun febrúar svo ekki er ég að skrifa nein spil þessa dagana en þarf að sinna skriftum í sambandi við púsluspilin og jólasveinabækling sem ég er að vinna að. Einnig er ég að skrifa litla kennslubók í jurtalitun, ekki til almennrar sölu heldur hugsuð fyrir námskeiðin mín innanlands og utan en ég stefni til USA í haust til að halda námskeið.. Ég er enn að vinna í Prakkarapeysuuppskriftinni og sit einnig við prufuprjón á þeirri uppskrift. Vonandi verður það allt tilbúið fyrir Garnival sem verður í byrjun maí. Ég er mikil áhugamanneskja um teppi og er í samstarfi við Varma um að framleiða fyrir mig teppi. Þau verða ekki jurtalituð en í sauðalitunum og þjóðleg. Teppin eru meira til gamans fyrir mig persónulega og líklega bara dýrt hobbý!!!!! Ég er einnig í framkvæmdum en ég stefni á að gera fyrirlestrarsal í hesthúsinu og það er heljarins vinna að tæma heilt 80 fm rými af drasli, henda og flokka, brjóta niður stíurnar, flota í gólf og þilja veggi og loft. Ég á mér líka þann draum að ná að vefa svolítið á borðvefstólinn minn og prjóna dálítið mér til gamans.. Það er ljóst að „rólegi tíminn“ fram í apríl dugar alls ekki fyrir öll þessi verkefni en á hverju ári gerist eitthvað.. Og auðvitað samhliða þessu öllu þá malla pottarnir..
Nýjustu færslurnar
Aukaopnun Sunnudagur 6. ágúst
Það verður opið í dag sunnudaginn 6. ágúst vegna verslunarmannahelgarinnar, [...]
Prjónamorgunn í Hespuhúsinu laugardaginn 14. janúar
Laugardaginn 14. janúar klukkan 10 þá verður prjónamorgun í Hespuhúsinu. [...]
Aðventan í Hespuhúsinu
Í vetur er opið á laugardögum á vinnustofunni frá klukkan [...]
Starfsemin í Hespuhúsinu
Hespuhúsið er jurtalitunarvinnustofa. Ég jurtalita einband og léttlopa eins og [...]
Hespuhúsið – vinnustofan
Í upphafi var ég að lita í eldhúsinu heima hjá [...]